Jörðin og lífrænn búskapur

Við erum gestir á jörðu…gestir dagsins í dag. Á morgun koma nýjir gestir…Hvernig viljum við búa þeim stað…?

  • ÁBURÐURINN OG NÁTTÚRAN
  • UM TILBÚINN ÁBURÐ

Náttúruvernd og lífræn ræktun

Aðal einkenni lífræns landbúnaðar er sá að hann grundvallast á heildarsýn, þar sem tekið er tillit til sem flestra þátta sem snerta framleiðsluna svo sem vistfræðilegra, heilsufars og mannúðarsjónarmiða, auk þess sem áhersla er lögð á félagsleg og hagfræðileg atriði.

Megin atriðið er að framleiða nóg af næringarríkri fæðu á uppbyggjandi hátt, þannig að unnið sé með lögmálum náttúrunnar. Lífræn ræktun gengur út á það, að vinna með og hagnýta lögmál náttúrunnar, án þess að vinna umhverfinu og framleiðslunni skaða. Við örvum samspil landbúnaðar og náttúru á jákvæðan hátt. Við tryggjum mögulega framleiðslu á matvælum til framtíðar.

Áburðurinn og náttúran

Markmiðið er að hvert bændabýli geti framleitt sem mest af matvöru án aðfluttra aðfanga og myndi þannig sjálfbært hringferli.

Það er gert með því að nýta vel öll þau lífrænu úrgangsefni sem til falla á býlinu sjálfu, svo sem allan búfjáráburð sé um skepnuhald að ræða, og svo allan annan lífrænan úrgang svo sem heymoð, hálm, matarafganga og fleira. Allur þessi lífræni úrgangur fer í safnhauginn og verður þar að áburði.

Í lífrænni ræktun er nauðsynlegt að nota belgjurtir svo sem smáran, samhliða öðrum nytjaplöntum í tún, en smárinn hefur þá sérstöku hæfileika, eins og allar jurtir af belgjurtaætt, að framleiða köfnunarefnisáburð,en það er það efni sem er hvað mikilvægasta í allri ræktun og þarf mest af. Þannig hagnýtum við okkur krafta náttúrunnar. Á rótum smárans lifa gerlar sem hafa það hlutverk að vinna köfnunarefni úr loftinu ( Náttúruleg áburðarverksmiðja) Gerlarnir framleiða meira köfnunarefni en smárinn sjálfur þarf til vaxtar, en það sem umfram er, nítist öðrum nálægum plöntum. (Svarðarnautum) Smárinn er jafnframt talinn einn besti próteingjafi fyrir jóruturdýr sem völ er á.

Í frjósömum jarðvegi lifa auk þess ótal jarðvegslífverur sem hjálpa til við að framleiða þau næringarefni sem til þarf á hverjum tíma, fái þær tækifæri til þess. Það gera þær með niðurbroti á lífrænum efnum svo sem á búfjáráburði og ýmsum öðrum jurtaleyfum.

Hér á landi hefur verið talað um forsforskort, sérstaklega í mýrum á suður og vesturlandi og þess vegna þurfi aðfluttan fosfor. Við rannsóknir erlendis hefur komið í ljós, að því lengur sem stunduð hefur verið lífræn ræktun, því meira losnar af fosfor.

Ein af þeim forsendum sem unnið er eftir í lífrænni ræktun, gerir ráð fyrir að jarðvegurinn sé líkt og hluti af plöntulíkamanum. Í jarðveginum á sér stað fyrir tilstilli jarðvegslífvera niðurbrot lífrænna efna sem falla til í hinni náttúrulegu hringrás. Þar kemur að efnin verða aðgegnileg rótunum og þau nýtast plöntunni til vaxtar. Með lífrænni áburðargjöf reynum við að líkja sem best eftir þeim aðstæðum sem plantan þarfnast til að ná eðlilegum vexti og þroska.

Í lífrænum búskap er eitt af markmiðunum að vernda og viðhalda erfðabreytileika og fjölbreytni viltra plantna og dýra á hverju býli. Í Bretlandi hefur komið í ljós við rannsóknir að lífræn bú hýsa fleiri fugla og flugur og eru með 5 sinnum fleiri plöntutegundir en hefðbundin bú.

Öll kemisk áburðarefni svo sem tilbúinn verksmiðjuframleiddur áburður er bannaður í lífrænni ræktun

Um tilbúinn áburð

Það sem er einkennandi fyrir “tilbúna áburðinn” er að hann inniheldur aðeins þrjú helstu áburðarefnin sem planta þarf til vaxtar þ.e. köfnunarefni, fosfor og kalí, og er því að þessu leytinu mjög einhæfur áburðagjafi. Næringarefnin í tilbúnum áburði eru einnig mjög lausbundin, og tapast því auðveldlega út umhverfið, og lenda að lokum út í ám og vötnum og svo út í haf. Afleyðingin getur orðið sú að ár og vötn deyja, eins og dæmin sanna erlendis.

Annar ókostur við tilbúinn áburð er sá að í t.d fosfor er einnig efni sem heitir kadmíum, og hafa rannsóknir sýnt fram á tengsl þess við krabbamein.

Tilbúinn áburður er verksmiðjuframleitt efni og er að því leiti viðbót við þau jurtanærandi efni sem fyrir eru í náttúrunni. Afleiðingin er offramboð á auðleystum næringarefnum, sem með útskolun vegna rigninga lenda út í ám og vötnum.Þessi ofauðgun næringarefna veldur því að mikill vöxtur hleypur í allt örverulíf og gróður,sem að lokum veldur súrefnisskorti, með þeim afleiðingum að allt líf í viðkomandi vistkerfi deyr. Þá getur grunnvatn mengast, eins og nýleg dæmi frá Danmörku og Bretlandi sanna, þar sem grunnvatn var orðið það mengað af áburðarefnum, sérstaklega nítrati og skordýraeitri, að það var orðið óhæft til drykkjar.

Tilbúinn áburður hefur einnig neikvæð áhrif á frjósemi jaðvegs, vegna þess að hann drepur niður örverulífið. Það leiðir aftur til minkandi loftrýmis í jarðvegi, sem svo aftur veldur súrefnisskorti sem er afar neikvætt gagnvart örverulífinu. Minkandi loftrými í jarðvegi hefur líka þau áhrif að rakadrægni jarðvegsins minnkar, því verða áhrif af þurrkum og stórrigningum meiri.

Eftir langvarandi notkun verða rætur mun styttri (ná ekki eins langt niður) þar sem þær þurfa ekki að hafa fyrir því að nálgast næringarefnin, því þau liggja nánast við nefið á þeim. Þetta gerir það að verkum að tún sem eru vön tilbúnum áburði verða háð honum. Það leiðir til þess, að sé hætt að bera á, kemur engin uppskera, svo nú halda menn að ekki sé hægt að rækta, nema notaður sé tilbúinn áburður.

Einn ókost enn er hægt að nefna, en hann er sá að vilji menn spara sér áburðarkaup, með því að nota smáraplöntur samhliða notkun á tilbúnum áburði, þá gengur það ekki upp, þar sem smárinn víkur fyrir öðrum plöntum, þegar tilbúinn áburður er notaður, það er að segja, hann drepst.

Þessu er öfugt farið í lífrænni ræktun. Með notkun á lífrænum næringarefnum, er stöðugt verið að vinna að aukinni frjósemi jarðvegsins, svo eftir ákveðin tíma skiptir ekki máli hvort borið er á þetta árið eða hitt, grasið sprettur samt, vegna þess að öll skilyrði eru fyrir hendi, svo sem öflugt örverulíf, vel lifandi smári o.s.frv. Því meir sem jarðvegur er lífgaður, því minna þarf af aðfluttum næringarefnum.

Fyrir utan það sem áður er nefnt, að þá er maðurinn meira en köfnunarefni (nítrat), fosfor og kalí. Við erum auðvitað miklu meira, enda er í búfjáráburði öll helstu snefilefnin sem planta þarf til vaxtar, til að geta þrifist til langframa, án teljandi skorts, öfugt við tilbúna áburðinn, sem inniheldur aðeins 3 helstu efnin þ.e. köfnunarefni (nítrat), fosfor og kalí, á móti kannski 3o – 4o efnum í búfjáráburði.

Þessi upptalning öll er kannski hégóminn einn þegar við áttum okkur á því að við þurfum ekki nauðsynlega “tilbúinn áburð” í ræktun. Það sem þarf til er réttur skilningur, réttar ákvarðanir. Hvernig getur það staðist að förgun á búfjáráburði sé vandamál, grundvallar hráefnið í allri ræktun. Og svo er talað um fæðuskort í heiminum sem rökstuðning fyrir notkun á tilbúnum áburði. Þá er ekki talað um dauð vötn, dauðar ár, og kannski bráðlega dauð höf.