Grísk jógúrt

Innihald:
Mjólk, jógúrtgerlar, jurtahleypir.
Milk, yogurt cultures, vegetable rennet.

Næringargildi í 100 g:

Orka 531 kJ
127 kkal
Fita 9,3 g
Þar af mettuð 5,5 g
Kolvetni 4 g
Þar af af sykurtegundir* 4 g
Prótein 7 g
Salt 0,1 g
*Þar af mjólkursykur 4 g
Þar af hrásykur 0 g
Category:

Lífræna Gríska jógúrtin frá Biobú er seldi í 200 gr og 500 gr umbúðum. Grísku jógúrtinni hefur verið ákaflega vel tekið af neytendum en hrein grísk jógúrt er mikið notuð í ídýfur með karríréttum og öðrum sterkkrydduðum réttum, þar sem hún er svalandi og vinnur á móti kryddinu í réttunum. Einnig má gera ís og ýmsa aðra eftirrétti úr jógúrt. Grísk jógúrt er gerð úr kúamjólk, er síuð (hluti af vökvanum látinn renna burt) og er því þykkari en venjuleg jógúrt en um leið sætari og bragðmildari. Hún er oft notuð í stað rjóma í mat eða borðuð með ávöxtum. **

Óralangt er síðan menn fóru fyrst að nota mjólkursýrugerla til að sýra og hleypa mjólk þar til hún verður þykkfljótandi. Talið er öruggt að steinaldarþjóðir þær sem byggðu Austurlönd nær fyrir 8000 árum hafi borðað einhvers konar jógúrt og þaðan barst jógúrtgerð bæði austur til Indlands (þar sem jógúrt er enn mikið notuð í mat) og vestur til Grikklands og Rómar. Jógúrtgerð var þó löngum mest stunduð í Tyrklandi, Balkanlöndum og víða í Mið-Asíu og þaðan barst hún á síðari hluta 20. aldar um öll Vesturlönd. Íslenska heitið er dregið af tyrkneska (og alþjóðlega) nafninu /yoghurt/, en eitthvað er á reiki hvort það skuli haft í kvenkyni eða hvorugkyni.

Óvíst er hvort langlífi Kákasusbúa er jógúrt og öðrum mjólkurvörum einum að þakka en svo mikið er víst að jógúrt hefur góð áhrif á meltinguna og þykir almennt holl fæða; hollustan fer þó eftir fitu- og sykurmagni hennar. Mestur hluti þeirrar jógúrtar sem Vesturlandamenn neyta er sykraður og bragðbættur með ávöxtum eða ýmsum bragðefnum. Hún er yfirleitt gerð úr kúamjólk en jógúrt úr sauðamjólk er sögð betri. Bragðið af jógúrtinni fer bæði eftir því hvers konar mjólk er notuð og hvaða gerlar eru notaðir til að sýra hana.

Hrein jógúrt er mikið notuð til matargerðar, ekki síst í Tyrklandi og Austurlöndum nær, og er hún notuð bæði í forrétti, aðalrétti og eftirrétti, svo og til að kryddleggja mat áður en hann er eldaður. Henni hættir þó við að skilja sig þegar hún hitnar og því ætti að forðast að láta mat sem hún er í sjóða eða setja hana út í sjóðandi heitan mat. Best er að hún sé við stofuhita þegar henni er bætt út í og það getur verið til bóta að hræra svolítið maísmjöl eða hrísmjöl út í vatni og hræra saman við hana áður, eða blanda léttþeyttri eggjahvítu saman við hana. Hitinn drepur líka gerlana í jógúrtinni og því er hollusta hennar langmest ef hún er ekki sett út í heita rétti fyrr en um leið og þeir eru bornir fram. Ef jógúrt er blandað saman við rjóma fæst blanda ekki ósvipuð súrum rjóma, sem oft sést í uppskriftum, einkum ættuðum frá Austur-Evrópu, og þá má setja hana út í heita rétti í lok eldunartímans án þess að hún skilji sig.